Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
29.6.2008 | 22:08
Hitabrækja er þetta...
Hmmmm.....
Weather in Seattle: 85.9 °F / 29.9 °C
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.6.2008 | 03:44
Myndband
Ég setti loksins inn myndbandið af fluginu með Grumman Goose. Það er 121MB á stærð svo ekki skamma mig ef þið nennið ekki að bíða eftir því öllu.
Það á að vera hérna til hliða, linkur nefndur "Myndbönd", ef það kemur einhverjum á óvart.....
Njótið, þið sem nennið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.6.2008 | 05:50
Nei sko þarna.....
Ég gersamlega brjálaðist þegar ég las þetta. Algerlega sleppti mér, ég hló svo mikið að ég átti hreinlega erfitt. Ef að menn ætla að fara að þusa yfir því að listamaður "selji sig" þá held ég að þeir ættu að snúa sér að hannyrðum eða vitavörslu frekar en að hlusta á tónlist. Ef að maður getur ekki selt tónlistina sína þá hætta menn að framleiða tónlist svo einhverju nemi, það er svo einfalt. Megas hefur svo gersamlega margsannað sig sem listamaður að það þarf ekkert að ræða það frekar. Fýrar eins og Doktor Gunni (sem ég reyndar hef afskaplega gaman af) eiga nú lítið með að setja sig á hán hest og fnæsa ábúðarfullir út í loftið með yfirlýsingar um "sell-out". Hvað með Unun? Ekki sá ég bensínskrímlsið skríða fram og drepa mann með skóflu þar.
Ef á hinn bóginn menn eru með yfirlýsingar ("Ég mun aldrei spila fyrir fyrirtæki" - skömmu seinna var sá hinn sami með risastórann VISA fána fyrir aftan sig á tónleikum og ekur nú um á að mig minnir Land Rover eða einhverju svipuðu) þá setja menn niður að mínu mati. Megas hefur aldrei verið yfir aðra hafinn. Eitt skýrasta dæmið með Megas var þegar einhver (man ekki hvaða) platan hans kom út:
Fréttamaður: "Hvernig er það Megas, nú ertu búinn að gefa út tvær plötur á árinu, er gnægtarbrunnurinn yfirfullur, er sköpunargleðin svo mikil að ekki dugar minna en að gefa út tvær plötur sama árið"?
Megas: "Nei, ég var bara blankur".
Segir allt sem segja þarf. Ég ætla samt að halda áfram að kaupa plöturnar hans.
Eitt annað með Megas. Fyrir um margt löngu bjó ég í nokkurskonar kommúnu í Kópavoginum. Það væri seint hægt að segja að menn lægju á bæn þar á laugardögum og einhverju sinni var partý þar (svona eins og verða vill) og þar komu meðal annars Megas og Heiða í Unun. Sem langvinnur Megasaraðdáandi þá var ég himinlifandi yfir að deila sögum og nokkrum, ca 2-3 glösum með meistaranum. Hápunkturinn var hinsvegar þegar við Megas drógum fram gítara og kyrjuðum saman lagið "Um skáldið Jónas". Gamanið fékk hinsvegar hálf gráan endi þegar Megas hætti að syngja, skellihlæjandi.
Þegar Megas hlær að söngröddinni þinni er kominn tími á að gera eitthvað annað en að syngja.
„Aldrei verið í krossferð gegn auglýsingum“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.6.2008 | 07:04
Dutch....
Dutch Dutch Dutch...... Annar fasi er byrjaður hjá mér hérna. Ég er laus frá þessum dýrðarstað sem Akutan er og kominn til Dutch Harbor. Paradís á jörðu eða þannig. Ef þið viljið sjá myndir frá Dutch Harbor kíkið þá á Deadliest Catch á Discovery. Ég hef hitt nokkra af þessum skipstjórum, þetta eru svosem fínir kallar en vita alveg af sér. Sig Hansen og Johnathan Hillstrand voru á sama hóteli og ég hérna í Dutch í fyrra og ég lenti á spjalli við þá hérna á barnum. Svaka puff í þeim "Yes, we King Crab fishermen, nothing is like fishing King crab, bla bla bla.....". Ég afrekaði náttúrulega að láta þá nærri berja mig. Ég sagði þeim að ég hefði verið nokkur ár á togurum og bátum heima á Íslandi. Þeir viðurkenndu að þeir hefðu heyrt að það væri nokkuð erfitt djobb en bráðum snerist talið að þeim.
"Hefurðu ekki séð Deadliest Catch?" spurði Sig Hansen.
"Jújú, ég hef svosem séð það. Það er nokkuð vinsælt hjá fiskimönnum heima hef ég heyrt" sagði ég.
"Nú", sagði Johnathan, nokkuð drjúgur.
"Já, þeir kalla það Sissies at sea".
Sig setti upp þvílíkan fýlusvip en Johnathan rauk á fætur alveg eldrauður í framan. Hann róaðist reyndar strax áður en hann hjólaði í mig þegar hann sá mig sitjandi þarna glottandi, alveg greinilega bara að láta eins og hálfviti. Við spjölluðum alveg heilmikið lengur, ég útskýrði fyrir þeim að ég skildi alveg þetta dramitazation, þ.e. láta svona dramatík ráða ríkjum í þáttum sem þessum. Við skildum sem alveg ágætis félagar, Sig reyndar bauð mér með einn stuttan túr einhverntímann þegar ég vildi. Kannski ég þiggi það.
En Dutch er mjög fyndinn staður. Með mér hérna er náttúrulega Dustin félagi minn frá Seattle, sem ég er að þjálfa upp til að taka við af mér en einnig er hérna hann Ari félagi minn frá Marel á Íslandi. Mig vantaði mann til að taka helminginn af uppsetningunum á móti mér, tímasetningar voru þannig að ég gat hreinlega ekki náð einni uppsetningunni og Dustin er ekki tilbúinn til að vera sendur út af örkinni aleinn. Ara finnst þetta náttúrulega vera alveg stórmerkilegt en segir samt að landslagið hérna gæti verið sem hæglegast víða á Íslandi. Sem er alveg rétt hjá honum, eins og ég hef minnst á áður.
Hann hefur svakalega gaman af því að líkja Dutch Harbor við Dalvík. Hann ætti svosem að þekkja það, býr þar. Þar, samhliða vinnu sinni hjá Marel, rekur hann gistiheimili þar, Árgerði. Mæli með því. Einnig gerir hann fína tónlist. Tékkið á honum á tonlist.is Hinsvegar er ég ekki viss um að sumir Dalvíkingar sæu húmorinn í samlíkingunni vð Dutch Harbor.
Ég hef minnst á það áður að mér finnst sjávarþorpin hérna við Alaska vera sambland af gömlu herstöðinni á miðnesheiði og hvaða sjávarþorpi sem er heima. Það er eitthvað svona generalt við fiskvinnsluna, nema hvað allt er náttúrulega mun stærra í sniðum hérna. Hérna er það magnið, ekki gæðin sem ráða ríkjum. Reyndar mun það breytast innan fárra ára, hér er kvótinn tekinn við eins og svo víða annarsstaðar, en hér er sá munurinn að ríkið á kvótann, menn fá bara leyfi til að veiða hann. Ef að eigandi kvóta leigir hann þá verður hann að framselja kvótann innan ákveðins tíma, annars missir hann kvótann. Þetta kerfi veldur því að kvótinn er bundinn við skip, ekki útgerðir. Skipið verður að veiða kvótann, það er ekki nema að takmörkuðu leyti hægt að færa hann á milli skipa. En lögin hérna eru svo vitlaus að þau valda því einnig að það er nærri ógerningur að yngja upp flotann. Verð á nýsmíði hérna er stjarnfræðileg og ekki má fiska innan Bandarískrar lögsögu nema á skipi sem er smíðað að mestu leyti í Bandaríkjunum. Þetta veldur því að sum skipin hérna eru, satt að segja ógeðsleg.
Við höfum verið að setja upp kerfi hérna í 4 skipum. Tvö þeirra hafa verið fínustu fley, gömul en alveg þokkalega viðhaldið. Skipin hrein og mannskapurinn hreint út sagt atvinnumenn. En hin tvö..... Við skulum orða þetta þannig.
Þegar hugbúnaðarmenn fara í uppsetningu þá koma mjög oft með smíðakallar, sem við köllum. Þeir fara oft á staðinn á undan okkur og setja upp tækin, smíða það sem smíða þarf og gera klárt fyrir okkur . Hérna eru með okkur tveir rosalega fínir náungar, Jason og Billy, öllum hnútum kunnugir og hafa marga hildina háð í þessum bransa, enda verið í honum í nærri "tuddugofimm ár", einsog leigubílsstjórinn sagði. En aðkoman að einum dallinum var þannig að þeir sögðust aldrei hafa séð annað eins. Fyrir það fyrsta þurftu þeir að byrja á að hreinsa burt hálfúldinn fisk og skola svæðið til að geta gert vinnuaðstöðu. Ég frétti af þessu eftir að ég kom um borð og ég trúi þeim alveg algerlega, ástandið á dallinum var með þeim hætti. Ekki bætti svo áhöfnin úr skák. Þeir voru reyndar bara tveir um borð en talandi um Knoll og Tott! Sá fyrsti sem við hittum lofaði góðu, eða þannig. Hann hefur sennilega farið í bað um 1984 eða svo, sennilega verið um svipað leyti sem hann var edrú síðast, það var allavega að sjá. Það fór hálftími hjá honum í að skammast yfir því að hann hefði engar teikningar yfir neitt, allt hefði komið ómerkt og óteiknað og fleira og fleira. Guð einn veit hvað hann hefði gert við teikningar ef hann hefði fengið þær, sennilega hefði hann étið þær. Hinn hefur sennilega baðað sig um eitthvað svipað leyti, kannski verið fullur aðeins skemur. En bara aðeins. Þegar karluglan hafði lufsast eitthvað niður í skip þá fórum við að reyna að finna eitthvað útúr þessu klúðri. Eftir að hafa skoðað skipið og dáðst að hinum ýmsu kytrum og skotum reyndum við að finna einhvern flöt á því að koma þessu dóti fyrir. Fljótlega kom upp úr dúrnum að ég myndi nú sennilega gera minnst af uppsetningunni, ég var eiginlega orðinn verkefnastjóri og var í símanum eða tölvunni allan liðlangann daginn. Vantaði bara svarta stresstösku og bindi, ég get svarið það.
Hinn dallurinn var stórum skárri. Eitthvað verið til hans vandað og vélstjórinn þar hafði bara bullandi húmor fyrir þessu öllu saman, fínn náungi þar á ferð. Alltaf bætast svo við verkefnin og ég er búinn að vera stressður í því að skipuleggja ferðir 5 kalla út um hvippinn og hvappinn, alltaf samt að reyna að halda kostnaði niðri. Þetta er engan veginn það sem að ég bjóst við að þurfa að standa í, ég er alvarlega farinn að huga að námi í bókasafnsfræði, eða jafnvel Sagnfræði. Vera einn af þessum köllum í rykugum sloppum sem eiga afdalaða bakherbergis búð á laugaveginum, hafa bara opið þegar mér sýnist og vera sérfræðingur í sögu Danska tíeyringsins eða eitthvað.
Bara eitthvað sem veldur því að ég þarf ekki að ferðast svona mikið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.6.2008 | 02:43
Fólk og fólk...
Þeir eru fleiri karakterarnir hérna sem vekja athygli mína. Það er einn hérna sem er alveg hreint yndislegur. Hann er svona einn af þessum American Homeland eitthvað, einn af þessum fýrum sem að safna byssum og eru að öllu leyti á móti öllu sem frá ríkisstjórninni kemur. Sama hvað. Nema þessi náungi stekkur á mig í hvert skipti sem ég nálgast. Hann hefur miklar áhyggjur af ástandinu í heiminum í dag og finnst frábært að ég sé að koma hérna til að þjálfa innfædda í djobbinu mínu - og fari svo heim aftur. Innflutningur á þekkingu, það er málið sko, segir hann. Ef að ekki er hægt að finna dæmið upp hérna innanlands segir hann, þá er um að gera að flytja það inn og þróa það frekar. Og henda svo lýðnum beinustu leið út aftur.
Þessi sami hefur mokað í mig ýmsum bæklingum og bókum sem að hreint út sagt eru merkilegar en kannski meika ekki mikinn sens fyrr en á annarri flösku eða svo. Samkvæmt þeim hafa Ísraelsmenn, arabar, svertingjar, kínverjar, evrópumenn og sennilegast geimverur verið orsakir allra ófara allra tíma. Ef ekki þá er það bara spurning um tíma. Samkvæmt þessum áræðanlegu heimildum hefur Bandarískum herskipum verið sökkt nokkuð reglulega og að því virðist skipulega frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar en málið alltaf verið þaggað niður af ríkisstjórnum hinna ýmsu landa og Pentagon. Ég held svei mér þá að Andrés Önd hafi verið í forsvari fyrir einum skipsskaðanum samkvæmt einum bæklingnum. Ég gat allavega ekki betur séð. Einhversstaðar var allavega minnst á hann.
En semsagt þá vekur þessi náungi mér nokkra kátínu þó svo að hann feili algerlega að sjá húmorinn í þessu. Kannski skrifa ég meira um hann seinna.
Síðan eru hér tveir náungar, eða kannski öllu heldur dömur (fer eftir viðhorfi) sem að ég hef dálítið gaman af. Jessör, þeir eru búnir að fara alla leið og láta snúa tólunum, komnir með innbyggða pípulögn. Gott hjá þeim, segi ég nú bara. Hugrekkið sem þarf til að fara í svoleiðis framkvæmdir er ólýsanlegt. Ég hef spjallað talsvert við aðra þeirra, er að jafnaði ófeiminn við að kynnast fólki og reifa við þau málin. Hún lýsti fyrir mér aðgerðinni með þvílíkum tilþrifum að ég ætlaði varla að þora að fara að míga lengi á eftir. Hún hefur gaman af að spjalla við mann um þetta, sagði reyndar að það væri hreint svakalega gaman að sjá svipinn á mönnum þegar lýsingarnar væru hvað grafískastar.
Reyndar hafa þær nýtt sér þessa nýfengnu reynslu í afar sérstæðum tilgangi. Önnur þeirra er búin að vera hérna í um 10 ár, safnaði reyndar fyrir aðgerðinni hérna og kom svo til vinnu aftur þegar þessum langþráða áfanga var náð. Og þær moka inn pening. Say no more.
Megnið af fólkinu hérna eru reyndar kynlegir kvistir. Menn þurfa að vera það að mínum dómi til að þola dvölina hérna. Verktakarnir sem koma hérna inn eru einnig margir hverjir all-sérstæðir, svo ekki sé meira sagt. Ljómandi og oft á tíðum yndislegt fólk, en.....spes.
Og hvað segir það þá um mig?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2008 | 19:04
Seinkun.....
Ekki fór það svo að ég næði að komast héðan í dag eins og ég var farinn að gera mér vonir um. Onei. Á morgun í fyrsta lagi skal það vera og ekki orð um það meir. Reyndar yljar það mér talsvert að fyrirtækið hérna reyndi að fara framhjá mér og tala beint við yfirmann minn. Bossinn minn sagðist hreinlega ekki geta samþykkt neitt fyrir mína hönd og sagðist ætla að tala við mig. Ef ég segðist þurfa að fara þá færi ég. Þarf að ræða það eitthvað frekar, eins og sagt er. Góður stjóri. En ég neyðist samt til að vera hérna aðeins lengur, ekki gengur að skilja kúnnann eftir óöruggan og ósáttann. Þannig að svoleiðis er það bara.
Annars var gærdagurinn einhver sá alversti sem að ég hef upplifað frá því ég byrjaði hjá Marel. Endalaus smábögg sem hefðu ekki verið neitt mál ef aðeins við hefðum fengið frið til að sinna þeim en þar sem stresslevelið er talsvert hátt hjá félögunum hérna þá var það erfitt að fá frið. En allt tekur enda, kerfið virkar og verið er bara að ganga frá nokkrum lausum endum. Allt til að róa kúnnann.
Sumarið hérna í Akutan kom með hávaða og látum í gær, virtist vera. Grenjandi sólskin alveg hreint og botnlaus blíða. Hitinn fór alveg upp í ca 15°C hérna í Costa Del Akutan og menn vissu hreinlega ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Ég var svoooooo feginn að þurfa ekki að sitja í gegnum þessa hitabylgju, alveg sáttur inni í stjórnherbergi inni í frystiklefanum, boginn yfir tölvunni.
Nóg í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2008 | 04:25
Meginmálið er það.......
...að síðustu dagar eru búnir að vera hreint geggjaðir! Upp kom mál sem ég ætlaði hreinlega ekki að ná að leysa en það hafðist samt með góðri aðstoð að heiman. Ég fæ .eim félaganum seint fullþakkað, stresslevelið var farið að ná óþægilega háum hæðum.
Allt virðist vera að komast á rétt ról hjá mér hérna, vinnsla byrjar hérna snemma í fyrramálið svo að það kemur þá í ljós hvort að verkamaðurinn sé verðugur launanna. Ég hef reyndar þá tilfinningu að ég vinni svosem fyrir laununum mínum og vel það, það er ekki málið.
Ég er alveg gersamlega útkeyrður, ætla að fara að koma mér í rúmið hérna.
Hilsen frá Alaska,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2008 | 23:00
Ein snögg
Fór í fjallgöngu.
Datt ekki.
Film at 11.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2008 | 11:18
Tillitsleysi
Mér er brugðið. Gott ef ég hreinlega hrökklaðist ekki afturábak og hrasaði við!
Ég er frekar illur akkúrat núna. Hér í Akutan eru búðir fyrir um 1100 manns. Megnið af því eru tveggja og þriggja manna herbergi. Það hefur alltaf verið krafa okkar tæknimanna þegar að við ferðumst að við fáum herbergi útaf fyrir okkur, það er andskotans nóg að vera vikum og mánuðum saman að heiman, herbergið er eiginlega eina tækifærið sem við höfum til að vera út af fyrir okkur. Nú hef ég ekkert á móti því að deila herbergi með öðrum langt í frá, en þar sem ég hef þurft að vinna lengi frameftir (klukkan er núna korter yfir 3 að nóttu hjá mér) þá var mér illa brugðið þegar að ég skaust upp í herbergi áðan til að ná mér í nokkuð sem mér vantaði. Nema þegar að ég opna dyrnar og kveiki ljós þá eru þar fyrir tveir allsendis ókunnugir menn, sofandi fast á sínu græna eyra. Sem ég segi, ég hef ekkert á móti því að deila herbergi, en það hefði nú andskotakornið mátt segja mér af því fyrr. Ég átti að vera einn með þetta herbergi (það eru ekki nema um 800 manns hérna núna) og var því búinn að koma mér þannig fyrir, næsta sem ég veit er að búið er að henda öllu draslinu mínu ofan á rúmið mitt. Þetta er mitt einkadót, mér er hreinlega ekki vel við að verið sé að gramsa í því.
Nú hinkra ég til morguns, fer beina leið til þess sem sér um herbergin hérna og læt ófriðlega.
Jafnvel viðhef munnsöfnuð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.6.2008 | 06:45
Tengihraði til og frá ......
Ég var að reyna að hlaða inn myndbandi hérna af flugi frá því í janúar þegar við yfirgáfum Akutan með Grumman flugbátnum. Hinsvegar er hraðinn á netinu með slíkum ágætum að það myndi sennilega vera talsvert fljótlegra að brenna það á disk og senda það með bréfdúfu til einhvers sem hefði skárri tengingu.
Allt netsamband hérna fer í gegn um gerfihnött og reyndar er ég að fatta að afritataka á sér stað akkúrat núna og því er bandvíddin öll undirlögð af því. Afritin eru nefnilega send yfir til Seattle á hverri nóttu.
Það hefur fátt markvert gerst hjá mér þennan daginn. Ég er búinn að vera í algeru nördakasti, húki boginn yfir lappanum og reyni að finna útúr því hvort að bilunin sé svona erfið eða ég svona vitlaus. Nema náttúrulega ég sé bilaður. Sitt sýnist hverjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)