Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hroðaleg tíðindi frá Alaska.... en ekki þau fyrstu þetta árið.

Skipsskaðar eru tíðir við Alaska. Ræður þar mestu um gríðarlega erfitt hafsvæði en einnig eru nokkur atriði sem spila inn í. Kvótakerfið við Alaska er í grunninn til svipað og hér, nema kvótarnir eru bundnir við ákveðin skip, ekki útgerðir sem slíkar. Einnig er eingöngu heimilt að veiða tiltekinn hluta kvótans (t.a.m. Ufsa - sem nota bene er ekki eins og Ufsinn við Ísland) frá rétt eftir miðjum janúar til loka mars. Þessi veiðigluggi veldur því að sótt er linnulaust nema veðrið sé þeim mun vitlausara að hreinlega sé ekki hægt að setja veiðarfæri í sjó, svipað og var hér. Þegar þeirri vertíðinni (A season) er svo lokið gera menn sig klára fyrir næstu (B season) og svo framvegis. Og meðan vertíðin er er svo róið. Punktur.

Annað er það atriði sem veldur því að skipsskaðar eru tíðari við Alaska en eðlilegt má telja. Í Bandaríkjunum gilda þær skrýtnu reglur að einungis má nota báta til veiða innan lögsögunnar sem eru smíðaðir í Bandaríkjunum. Og verð á nýsmíði þar er slík að erfitt er að endurnýja skipakostinn. Þetta veldur því að við Alaska eru á veiðum fleytur sem ættu hvergi heima nema á safni. Trúið mér, ég hef unnið við nokkur slík skip. Sem dæmi má nefna að í hitteðfyrra var ég við vinnu um borð í bát sem smíðaður hafði verið 1941. Verið var að breyta honum til að gera úr honum fljótandi fiskvinnslu. Ástand bátsins var með því móti að mér var hreinlega illa við að fara um borð í hann þar sem hann lá bundinn við bryggju, ég hefði þverneitað að fara með honum út á ytri höfnina, hvað þá lengra. Frekar synt í land.

Nú er ég alls ekki að segja að ástand flotans við Alaska sé slíkt að það bæri að koma honum í land og binda hann við bryggju. Síður en svo. Alaska Ranger var t.a.m. einn af glæsilegri bátum sem gerðir eru út frá Seattle. Pacific Glacier sem kviknaði í fyrir nokkrum vikum var svo góður að ég hefði glaður yfirgefið hvaða skipsrúm sem var hér á landi og farið á hann.

Bandaríska Strandgæslan er með rosalegan viðbúnað fyrir hverja vertíð. Þyrlur eru dreifðar um allt og mörg gæsluskip á sjó. Það, ásamt miklum æfingum um borð í hverju skipi (Strandgæslan kemur um borð og prófar menn) veldur því að menn eru undirbúnir á hverju skipi.

Nú má vera að einhverjir eru kannski ekki alveg sammála mér um öll atriði. Hafa kannski verið á sjó þarna. En mínar heimildir eru einfaldlega þær að ég bý í Seattle og vinn við að setja upp Marel kerfi í þessum skipum. Spjalla því mikið við þessa kalla og er mikið um borð í þessum bátum.


mbl.is Fjórir sjómenn fórust og eins er saknað við Alaska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara svona til að sýna að ég sé á lífi....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband