Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Merkilegt......

Eitt sem ég hef lært á þessu flandri mínu um hálfan heiminn er að fólk er allt eins. Það hefur drauma, vonir og þrár. Fólk á sér enga ósk heitari en að geta séð sér og sínum farborða, skammlaust. Fólk fer misjafnar leiðir að þessu marki. Sumir fara út á vinnumarkaðinn um leið (og reyndar oft fyrr) og nokkur kostur er, aðrir búa að því að geta menntað sig í nokkur ár og farið svo að vinna.

Eðli starfs míns samkvæmt þá díla ég við báðar þessar stéttir. Yfirmennirnir í verksmiðjunum hafa oftast nær einhverja menntun bakvið sig en verkafólkið er oftast nær alveg ómenntað. Ég er svona nokkurnveginn mitt á milli. Ég hef lokið nokkru námi en það nám sem ég hef klárað heima gefur í sjálfu sér ekki nokkur réttindi. En reynsla mín, heima sem erlendis eru talsverð búdrýgindi. Ég átti í gær ágætt spjall við einn náunga hérna. Hann er frá Víetnam, algerlega ómenntaður og á konu og börn í Víetnam. Staðurinn hérna er þannig að maður er alltaf feginn þegar maður fer héðan. Þó að segja má að hér sé allt til alls þá er þetta einangrað og tilbreytingarsnautt.

Þessi ágæti kunningi minn hefur ekki komið heim í rúm 3 ár. Hann vinnur og vinnur eins og skepna því launin sem hann fær hér eru svo stjarnfræðileg miðað við það sem hann fengi heima að hann getur ekki sleppt þessu.

"Veistu, 2 ár í viðbót og þá get ég hætt. Opnað lítið veitingahús, skrafað við nágrannanna og leikið við börnin" sagði hann, himinlifandi yfir þessum happdrættisvinning sem hann hafði fengið upp í hendurnar.
"En hvað með fjölskylduna", sagði ég. "Þú ert ekki búinn að hitta konuna eða börnin í 3 ár"?
"Þau skilja þetta" svaraði hann að bragði. "Ég sendi heim ákveðna summu reglulega og hitt safnar vöxtum á bankabók hérna, svo þegar ég hætti þá skipti ég öllu yfir í dong (gjaldmiðillinn í Víetnam) og lifi eins og kóngur!"
"En heldurðu að krakkarnir muni eitthvað eftir þér?" spurði ég. "Nú er ég búinn að vera í 2 mánuði frá spúsu og börnum og er algerlega að flippa yfir og krakkarnir mínir ekki síst. Hvað eru þeir gamlir?"
"11 ára strákur, 7 ára strákur, 5 ára stelpa og tæplega 2 ára strákur" sagði hann, rígmontinn.

Mig setti aðeins hljóðann. Það hafði svosem hvarflað að mér áður að hann væri engin vitsmunabrekka en ást á fjölskyldunni þarf ekki vitsmuni til. Ég ákvað það að það væri ekki mitt mál að benda honum á að þetta gengi ekki alveg upp, hann var gríðarlega stoltur og sýndi mér myndir af skaranum, þar á meðal nýjasta meðliminum sem "væri beint úr föðurætt hans".

Gott og vel.


Bandarísk fyrirtæki og verkalýður

Það er margt steinaldarlegt hérna í USA. Sum fyrirtæki vilja alls ekki ráða fólk sem er í verkalýðsfélögum, finnst sem það leggi á sig of miklar kvaðir. Og þar sem þáttaka í verkalýðsfélögum er ekki skylda og verkalýðsfélög hafa hálfgerðan mafíustimpil á sér hérna eigast við stálin stinn.

Þetta veldur því að farandverkalýður eins og hér er í Akutan ber meginþungann af fiskvinnslu í Bandaríkjunum. (þess má geta í framhjáhlaupi að sjómenn hér eru ekki launþegar. Þeir eru verktakar og þurfa t.a.m. að borga tvöfalda heilsutryggingu. Sem er ekki gefin fyrir.) Og af því fólið er ekki í verkalýðsfélagi þá getur fyrirtækið sett nærri því hvaða reglur sem það vill og skyldað fólk til að fara eftir þeim. Hér í Akutan er eitt þorp. Þar búa um 60 alkohólistar og er þar náttúrulega eini barinn á eyjunni. Farandverkafólkinu er stranglega bannað að láta sjá sig þar þó við (fastráðnir og tæknimenn) megum fara þangað. Öll meðferð áfengis og vímugjafa er að sjálfsögðu stranglega bönnuð innan verksmiðjunnar og í gistirýmunum. En fróðlegast er að lesa handbók starfsmanna þegar kemur að veikindadögum og allrahanda hegðunarmálum. Ef að fólk er rekið fyrir einhverjar sakir (og þarf oft ekki mikið til) þá þarf það að borga farmiðann heim sjálft, og sökum þess að það er ekki hlaupið að því að komast hingað þá kostar það stórfé að koma fólki til og frá Akutan. 

 Það var gúllas í matinn áðan.

Ég vona bara að það hafi ekki verið einhver sem ég þekkti.

Hannibal


Akutan, Alaska

Jæja, þá er ég mættur á gamalkunnar slóðir. Nánar tiltekið eyjuna Akutan, í Aleuta eyjum í Alaska.


View Larger Map

Hér hef ég verið nokkrum sinnum áður, eins og sjá má á gamla blogginu mínu, www.123.is/rattati
Þar eru einnig einhver fjöldi mynda.

Eitt af því skemmtilega við þessa vinnu mína er að ég hitti gríðarlega mikið af fólki sem að kannski labbar ekki alveg eftir sama slóða og aðrir. Þegar ég lenti í Dutch Harbour í gær kom í ljós að ekki var flugfært til Akutan. Það er reyndar svakalega gaman að fljúga þessa leið því að farkosturinn er yfir 60 ára gamall, Grumman Goose flugbátur. Eldri kynslóðir Íslendinga ættu að muna eftir þeim.
Grumman Goose 1944. Bara flottur.

Það eru ekki bara flugvélarnar hérna sem eru eiginlega á síðasta snúningi. Eins og ég sagði þá er mikið um spes fólk hérna. Og af því ekki var flugfært hingað þurftum við að fara með bát hingað yfir og voru um 30 manns um borð í honum. Þar á meðal var einn gamall hippi. Hann hafði greinilega tekið virkan þátt í efnafræðilegri tilraunastarfsemi sem átti sér stað hjá hippunum á sínum tíma. Síiðandi, flissandi upp úr þurru og skemmti sér greinilega konunglega. Ég náttúrulega fór að spjalla við hann, fólk eins og hann heilla mig á einhvern hátt, ég hef óendanlega gaman af svona fólki. Talið barst meðal annar að því hvar ég vann, ég sagðist vera að vinna hjá Carnitech í Seattle sem væri dótturfyrirtæki Marel á Íslandi.
"Marel", sagði hann. Ég fattaði svosem strax að hann heyrði greinilega einungis það sem hann vildi heyra. "Marel er nafn á sveppi" Hann átti reyndar við Morel, en ég lét kyrrt liggja. "Alveg rosalega gómsætur sveppur. Ég veit sko allt um sveppi".
Ég efast ekki um það.

Kem með aðra færslu og fleiri myndir seinna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband