Merkilegt......

Eitt sem ég hef lært á þessu flandri mínu um hálfan heiminn er að fólk er allt eins. Það hefur drauma, vonir og þrár. Fólk á sér enga ósk heitari en að geta séð sér og sínum farborða, skammlaust. Fólk fer misjafnar leiðir að þessu marki. Sumir fara út á vinnumarkaðinn um leið (og reyndar oft fyrr) og nokkur kostur er, aðrir búa að því að geta menntað sig í nokkur ár og farið svo að vinna.

Eðli starfs míns samkvæmt þá díla ég við báðar þessar stéttir. Yfirmennirnir í verksmiðjunum hafa oftast nær einhverja menntun bakvið sig en verkafólkið er oftast nær alveg ómenntað. Ég er svona nokkurnveginn mitt á milli. Ég hef lokið nokkru námi en það nám sem ég hef klárað heima gefur í sjálfu sér ekki nokkur réttindi. En reynsla mín, heima sem erlendis eru talsverð búdrýgindi. Ég átti í gær ágætt spjall við einn náunga hérna. Hann er frá Víetnam, algerlega ómenntaður og á konu og börn í Víetnam. Staðurinn hérna er þannig að maður er alltaf feginn þegar maður fer héðan. Þó að segja má að hér sé allt til alls þá er þetta einangrað og tilbreytingarsnautt.

Þessi ágæti kunningi minn hefur ekki komið heim í rúm 3 ár. Hann vinnur og vinnur eins og skepna því launin sem hann fær hér eru svo stjarnfræðileg miðað við það sem hann fengi heima að hann getur ekki sleppt þessu.

"Veistu, 2 ár í viðbót og þá get ég hætt. Opnað lítið veitingahús, skrafað við nágrannanna og leikið við börnin" sagði hann, himinlifandi yfir þessum happdrættisvinning sem hann hafði fengið upp í hendurnar.
"En hvað með fjölskylduna", sagði ég. "Þú ert ekki búinn að hitta konuna eða börnin í 3 ár"?
"Þau skilja þetta" svaraði hann að bragði. "Ég sendi heim ákveðna summu reglulega og hitt safnar vöxtum á bankabók hérna, svo þegar ég hætti þá skipti ég öllu yfir í dong (gjaldmiðillinn í Víetnam) og lifi eins og kóngur!"
"En heldurðu að krakkarnir muni eitthvað eftir þér?" spurði ég. "Nú er ég búinn að vera í 2 mánuði frá spúsu og börnum og er algerlega að flippa yfir og krakkarnir mínir ekki síst. Hvað eru þeir gamlir?"
"11 ára strákur, 7 ára strákur, 5 ára stelpa og tæplega 2 ára strákur" sagði hann, rígmontinn.

Mig setti aðeins hljóðann. Það hafði svosem hvarflað að mér áður að hann væri engin vitsmunabrekka en ást á fjölskyldunni þarf ekki vitsmuni til. Ég ákvað það að það væri ekki mitt mál að benda honum á að þetta gengi ekki alveg upp, hann var gríðarlega stoltur og sýndi mér myndir af skaranum, þar á meðal nýjasta meðliminum sem "væri beint úr föðurætt hans".

Gott og vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband