Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Hm...

Sem borinn og barnfæddur Selfyssingur þá er ég ekki alveg viss um hvernig mér líst á þetta. Þarna er greinilega verið að tala um rennslisvirkjun (duh!) en ég myndi vilja sjá útfærslu á hugmyndinni. En ef hægt er að nýta rennslið þá er það bara stórkostlegt.
mbl.is Áforma virkjun Ölfusár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staldrið nú aðeins við!

Mér finnst sem Íslendingar séu að gera gersamlega upp á bak af þóttalegri vandlætingu hérna. Ég sem bý erlendis og kem ekki nema endrum og sinnum heim vil aðeins við þetta bæta og það er að fordómarnir eru akkúrat í engu minni á Íslandinu góða. Glöggt er gests augað og allt það, en fordómarnir snúast kannski ekki jafn beint að samkynhneigðum og í Færeyjum. Nei, á Íslandi eru það fordómar gagnvart útlendingum.

Fordómar af öllu tagi eru mér mjög að móti skapi og þeir sem mig þekkja vita að þegar ég kem með fordóma yfirlýsingar þá er ég í öllum tilfellum að stuða einhvern viljandi. Mín vegna mega menn kyssa/káfa/gera hvað sem er við hvern þann einstakling sem þeir vilja (innan löglegra marka náttúrulega), það er einn af þeim hlutum sem persónulegt frelsi er. Þetta sama persónulega frelsi leyfir mönnum að hafa sitt álit líka á hinn veginn, samanber Árna Johnsen og skoðana- og þjáningabróður hans Jenis Av Rana. Skoðun er manninum mikilvæg og þar komum við að kjarna málsins.

Samkynhneygðir hafa ekkert val um sitt eðli, sama hvað Árni Nonsens tuðar og röflar. Útlendingar hafa hinsvegar val. Þeir geta til að mynda valið að vera í sínu landi í sulti og volæði eða komið til annars lands og reynt að skapa sér framtíð þar. Trúið mér, ég veit hvað ég er að tala um hérna, búsettur í Bandaríkjunum. Það er eitt að flytja til norðurlandanna þar sem altumlykjandi heilbrigðis- og félagskerfi reddar málunum - misvel þó - og að rífa sig upp frá t.a.m Póllandi þar sem ekkert er í boði. Þannig að þeirra val er að reyna að þreyja Þorrann eða búa sér til betra líf. Ég hef ferðast mikið um sjávarplássin á Íslandi og kynnst ógrynni af ljómandi góðu fólki (innflytjendum) sem á sér enga ósk heitari en að verða góðir og gegnir borgarar. Þegar fólk kvartar yfir því "að þetta lið vilji ekki einusinni læra Íslensku" þá er nú staðreyndin oftar en ekki sú að það hefur hreinlega ekki staðið því til boða. Mjög margir þeirra sem ég tala við eru að reyna hvað þeir geta en fordómar og léleg aðstoð er þeim fjötur um fót.

Takið eftir að ég geri greinarmun á fólki sem vill gerast góðir og gegnir borgarar og þeim sem vilja bara nýta sér þetta ágæta tryggingakerfi sem við höfum. En leitum ekki langt yfir skammt. Það er nóg af Íslendingum á norðurlöndunum sem gerir ekki handtak heldur liggur bara á ríkinu eins og hverjir aðrir þurfalingar. Sjálfum finnst mér að hver sá sem vill setjast að í landi skal læra mál þess. Ef þú vilt það ekki hefur þú nákvæmlega ekkert í því landi að gera. Þetta er einfalt fyrir mig að segja, búandi í enskumælandi landi en þetta finnst mér vera grundvallaratriði þegar kemur að fastri búsetu. Ef þú ert tímabundinn starfsmaður er ekki hægt að krefjast þess að þú lærir málið. Ef að fólk er með erlent ríkisfang og verður uppvíst að glæpum - svo ég tali ekki um skipulögðum glæpum - þá úr landi með það. Þeirra eigin þjóð getur látið þá sitja inni. Búseturéttur skapar ekki sjálfkrafa sömu réttindi og ríkisborgararéttur. En fólk sem er eins og ég og þú ... hvernig getur þú sem hugsandi manneskja verið með fordóma af því einu að það er frá Tailandi eða Póllandi, nú eða frá USA?

En aftur að samkynhneigðum. Fordómar og ofsóknir gagnvart samkynhneygðum eiga sér oftast nær frummælendur sem að telja sig fremsta meðal trúaðra. Afsakið meðan að ég æli. Þessir sömu fela sig bakvið tilteknar ritningagreinar og ota þeim fram sem einhverjum sannleik. Fyrirgefið, en í mínum huga þá er ekki einu sinni sjónarmunur á því sem er ósýnilegt og því sem er ekki til. Þeir ota fram einhverju ritningarerindinu um sannleik sinn en leiða algerlega hjá sér góðu kaflana þar sem hvatt er til umburðarlyndis. Þetta kallast á engilsaxnesku "selective reporting" og þykir ekki góð latína. Svona menn dæma sig sjálfir.

En til að draga þetta saman: Kastið ekki steinum úr glerhúsi. Maður getur nefnilega skorið sig á glerbrotunum.

Ég þakka þeim er hlýddu og hlakka til að lesa fúkyrðaflauminn sem ég á eflaust eftir að fá í kommentin hjá mér.


mbl.is Ótrúlegir fordómar í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband