Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Frakkar að mótmæla? Hvenær gerðist það síðast?

Og þetta er kallað frétt....!
mbl.is Starfsfólk France 24 mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástralir og frumbyggjar.

Árið 1990 var ég skiptinemi á vegum ASSE (American-Scandinavian Student Exchange) í Geelong í Ástralíu. Ég hef ferðast mikið vinnu minnar vegna og er núna búsettur í Bandaríkjunum, á vegum fyrirtækisins. Það er sama hvar ég hef komið, ég hef hvergi fundið fyrir “ég-er-heima” fílinginn eins og ég fann í Ástralíu. Ástralir og Íslendingar eru um margt líkir. Það er svona svipað “þetta reddast” hugarfar, en Ástralir fara þó ekki nærri jafn langt í fjárhagslegu fylleríi og Íslendingar.

 

Talandi um fyllerí, það var nú nákvæmlega vegna þess sem að ég var eiginlega tekinn úr umferð eftir skamma dvöl. Mér var harðbannað að hafa nokkurt samband við hina skiptinemana og eiginlega settur í stofufangelsi. Fósturforeldrar mínir voru aðflutt, skosk að þjóðerni og – ég er ekki að grínast – kallinn var algerlega eins og inspector Taggart, fyrir þá sem muna eftir honum. Illskiljanlegur og gersamlega vangefinn í skapinu. Þetta var sveitabær talsvert fyrir utan Geelong. Þannig varð ég að dúsa í um 3 mánuði og hafði eiginlega ekkert við að vera nema spila á gítarinn, drekka kaffi, lesa og fara í gönguferðir um sveitina.

 

Það var á einni þessara gönguferða sem að ég kynntist einum ágætum bónda þarna. Hann hafði gaman af þessum illskiljanlega útlending sem væflaðist þarna um með eymdarsvip, illa haldinn af heimþrá. Kallinn var eilítið yngri en fósturforeldrar mínir og fór svo að við áttum margar skemmtilegar samræður um allt á milli himins og jarðar. Ástralski húmorinn er dálítið spes, kannski sprottinn af líkum rótum og Íslenski húmorinn sem vill nú vera dálítið rætinn. Munurinn er þó sá að sá Ástralski er með einhverskonar svona “matter of fact” tón sem að þeim Íslenska vantar. Sem dæmi má nefna að Ástralir eru einhverjar almestu karlrembur sem að fyrirfinnast í víðri veröld. Það er alveg sama hverju konan tekur upp á, hvað hún nöldrar og skammast, viðkvæðið er alltaf hið sama, “she’ll be right, mate”. Tónninn er einhvernveginn þannig að það er óhugsandi annað en að hún jafni sig. Svo yppa menn bara öxlum og fá sér annan bjór.

 

Eitt var það sem pirraði mig alltaf við hann og það var algerlega ódulbúin rasismi. Fyrir honum voru frumbyggjarnir bara villimenn og væru best geymdir í stíu hjá hinum búfénaðinum, ef þá fyrir manna augliti yfirhöfuð. Ég, komandi frá (í þá daga) hinu ofverndaða Íslandi, maldaði náttúrulega í móinn, sagði að þau væru nú fólk eins og við og ættu alla sambærilega virðingu skilda.

 

“Virðingu”, hnussaði kallinn. “Nei, það þarf sko ekki að sýna þessu pakki neina virðingu. Fyrir nokkrum árum var reynt að draga þetta lið uppúr svaðinu, þar sem það hafði komið sér alveg ágætlega fyrir, þakka þér kærlega. Þeir fengu nýjar íbúðir, bíla, verslanir og égveitekkihvað, beint upp í hendurnar frá ríkinu og kostaði þau ekki krónu. Innan hálfs árs var þetta lið svo búið að koma upp þvílíku slömmum að annað eins hefur aldrei sést. Íbúðirnar ógeðslegar, bílarnir annaðhvort klessukeyrðir, rændir, eyðilagðir eða seldir, verslanirnar rændar og allur þeirra peningur fór í brennivín. Nei, virðing er það síðasta sem þetta lið fær frá mér, nema kannski fyrir utan peninginn minn.”

 

Þannig gat hann haldið alveg ljómandi skemmtilegar einræður kallinn, sem að reyndar eins og lesa má, voru með nokkuð einhæfum undirtóni. Það er mér til skammar að segja að maður smitaðist aðeins af þessu hugarfari þarna, þó það væri langt í frá að ég væri rasisti eins og kallinn.

 

Þegar að dvöl minni hjá skosku hjónunum lauk, þá var mér fengin önnur fjölskylda. Þar undi ég hag mínum hið besta, við spiluðum meðal annars saman á gítar ég og fósturbróðir minn sem síðan hefur getið sér gott orð í þeim geira. (www.adamharvey.com.au) Einnig spilaði ég talsvert af fótbolta og það var þar sem að ég komst í kynni við Denny, rosa fínan strák af frumbyggjakyni. Þetta er atvik sem að líður mér aldrei úr minni.

 

Við vorum búnir að spila og vorum að fá okkur bjór eftir leikinn. Ég og Denny höfðum spjallað saman um allt mögulegt, enda var ekki þessi sama fjarlægð á milli okkar eins og ég fann að var á milli hans og hinna (hvítu) strákanna. Strákarnir kölluðu hann alltaf Choko og einusinni allsendis óvart varð mér á að kalla hann það líka.

 

Ég gleymi aldrei sársaukaaugnaráðinu.

 

Ég, eini maðurinn í liðinu sem hafði komið fram við hann eins og jafningja, var þegar upp var staðið ekkert öðruvísi en hinir.

 

Mér dauðbrá og skammaðist mín alveg niður í tær og bað hann samstundis afsökunar. Hann leit á mig, brosti og kinkaði kolli. Þetta var upphafið að góðri vináttu.

 

Þegar á leið fann ég að við náðum mjög vel saman. Við djömmuðum alveg heilmikið saman, en þess var gætt að þegar ég djammaði með honum og vinum hans, að þeim var sagt að ég væri OK og ætti ekki að ganga í skrokk á mér. Hatrið gagnvart hvíta manninum var nefnilega gríðarlegt. Samræðurnar sem að ég átti við Denny um kynþáttamálefni voru einkar athyglisverðar. Hann kom með nokkuð góða punkta sem ég hafði ekki hugsað út í áður. Ég spurði hann út í verkefnið sem bóndinn hafði lýst fyrir mér.

 

“Jú, það kannast ég vel við. Mín fjölskylda var ein af þeim sem var valin í þessa tilraun. Ég veit nákvæmlega hvernig þetta endaði, en við hverju var að búast? Þarna voru frumbyggjar sem að voru í sjálfu sér teknir með valdi af stjórnvöldum, uppúr hreysum sem þeir höfðu byggt sér og bjuggu við eymd og vesældóm. Það gekk allt á, alkóhólismi, dóp, nauðganir, rán, morð, þú breytir því ekki með því að setja fólk í glæný hús. Stjórnvöld voru ekki annað en að reyna að kaupa sér friðþægingu við fortíðina, en eftir að frumbyggjar hafa verið á götunni meira og minna í tæp 200 ár þá þarf meira en það til að koma þjóðflokknum á lappirnar. Það þarf að ala þjóðina upp frá grunni, breyta hugarfarinu og auka menntunina. Allt annað er bara eins og að pissa í skóinn sinn, þér er hlýtt rétt fyrst en svo er þér bara kaldara.”

 

Það var merkilegt að hlusta á hann, rétt tvítugan manninn tala svona eins og margfalt eldri og reyndari maður. Hann hafði reyndar þá þegar barist við ótrúlegt mótlæti, foreldrarnir voru alkar, pabbi hans lamdi hann og systkynin og misnotaði í senn. Hann hinsvegar tók þá ákvörðun að brjótast út úr þessu ferli. Nú í dag er hann einn af helstu talsmönnum frumbyggja í Victoria fylki og gerir það gott. Hann var meðal annars einn af þeim sem að mótmælti kröfu frumbyggjana um peningagreiðslur frumbyggjum til handa. Hann vildi byrja á hinum endanum. Hann meinti það greinilega sem hann sagði hér um árið.

 

En engin rós er án þyrna. Innan frumbyggja eru náttúrulega líka ósvífnir aðilar sem vilja maka krókinn, hvað sem það kostar. Ástralska ríkisstjórnin virti sögu frumbyggja á áttunda áratugnum þegar hún setti í lög að svokallaðir helgireitir (holy ground) sem skipa mjög ríkan þátt í trúarlífi frumbyggja, skyldu vera eign frumbyggja og lúta stjórn þeirra. Innan fárra ára þá voru þeir blettir orðnir ansi margir, enda trú þeirra flókin. (Ég nota orði trú svona til að nota eitthvað. hinn al-Ástralski "Dreamtime" er margfalt flóknara fyrirbrigði en það). En það var alveg hreint merkilegt hvað margir af þessum blettum höfðu þegar byggingar á sér, sem að þegar “upprunalegi” eigandinn hafði yfirgefið voru fullsetnar af frumbyggjum við leik og störf, ef það má orða það sem svo. Þegar svo einn þeirra reyndi að láta sömu lögin ná yfir miðborg Perth, þ.e.a.s. fjármálahverfið, þá tók nú tappann (þetta eru jú Ástralir) úr. Frekar illa hugsuð lögin voru samin upp á nýtt og settir inn skilmálar að frumbyggjar yrðu að, kannski ekki sanna, en leggja fram rök máli sínu til stuðnings um að téður blettur væri helgur reitur.

 

Þetta mál, ásamt fleirum hefur valdið því að hinn almenni Ástrali er fullur tortryggni þegar kemur að því að “gera upp” fjárhagslega einhver illvirki sem drýgð voru. Persónulega, þá er ég sammála því, því orð Denny sitja ennþá í mér, tæpum tveimur áratugum seinna.

 

Þetta ár breytti mér mikið, gerði mig að (vona ég) betri manni. Að kynnast svona atriðum, svona karakterum eins og ég hef hér lýst er ómetanleg reynsla. Þú gerir það ekki á 4 vikna ferðalagi með Heimsferðum. Styðjið skiptinemana.


mbl.is Frumbyggjar fá ekki skaðabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxus maður...

Segir þetta ekki eiginlega allt sem segja þarf um landann? Kreppuspár og bölbænir, iss piss, njótið lífsins meðan það er gott, þetta fer hvort eð er allt til andskotans sama hvað gert er.

Væri samt ekki ráð að safna aðeins í sarpinn fyrir mögru árin í staðinn fyrir að kaupa jeppa upp á 10+ millur?

Síðan er náttúrulega það Íslenskasta af öllu Íslensku: "Þetta reddast".


mbl.is Kreppuspár stöðva ekki lúxusbílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband