27.3.2007 | 08:19
Eldri færsla frá Alaska
Önnur eldri færsla.
Vinnan mín er þess eðlis að ef ég er staddur í öðru tímabelti en okkar áskæra Frón tilheyrir, þá get ég lent í því að þurfa að vaka nokkuð lengi. 20 tíma dagar eru alls ekki óalgengir hjá mér.
Ég lauk talsverðri vinnutörn um 10 leytið þetta kvöld. Ég var talsvert slæptur eftir nokkra daga án mikils svefns. Ég var að setja upp búnað um borð í verksmiðjuskipi og er áfanganum var náð greip um sig mikil hamingja um borð, svo mikil að ekki mátti minnast á annað en að bjóða mér upp á bjór. Ég maldaði aðeins (ósannfærandi) í móðinn en var án nokkurra tafa drifinn upp í bíl og var ekið sem leið lá á pöbbann. Mættir voru undirritaður, skipstjórinn og vélstjórinn. Bjórinn var svalandi, það vantaði ekki, en eftir að hafa klárað einn og kominn hálfa leið ofan í annann, þá var mér hreinlega ekki stætt á því lengur að reyna að vaka, klukkan orðin 12 á miðnætti. Ég tilkynnti ákvörðun mína samferðamönnunum sem reyndar höfðu verið ansi duglegir í viskíinu á meðan ég lapti þessa björlögn. Þeir höfðu reyndar verið það duglegir að skipstjórinn var kominn í svipað ástand og ég, lifandi dauður. Vélstjórinn var þó eitthvað brattari. Nú, hersingin stormaði út, vélstjórinn sagðist ætla að finna leigubíl og hvarf út í myrkrið í þeim erindagjörðum. Ég og skipstjórinn reyndum að halda hvorum öðrum félagsskap en þar sem ég er frekar linmæltur að jafnaði, þá juku þreyta, bjór og engilsaxnesk málfræði þessa tilhneygingu mína til mikilla muna. Gáfulegustu hljóðin sem komu frá skippernum voru "Wha´, waddareyousayin´, Hnu?", og "Got no idea what you´re saying". Eftir á að hyggja þá hefði ég gjarnan viljað eiga upptöku af þessu samtali. Að endingu birtist svo vélstjórinn með bíl, honum ók inúítastúlka ein mikil. Og ég meina sko mikil. Þegar hér var komið við sögu þá hafði skipperinn sofnað. Honum var dröslað inn í bíl, hann lagður til og ég settist við hlið hans og man svo ekki meir. Ég steinsofnaði á augabragði.
Ég hrökk upp. Hvar var ég? Ég leit út um bílgluggann. Úti stóð vélstjórinn og reifst við dömuna sem hafði keyrt. Ég leit í kringum mig og sá að við vorum í svona archtypical trailer park. Ég leit á klukkuna. 2:30!!! Búinn að sofa í rúma 2 tíma og hvar í fjandanum var ég? Ég byrjaði á að grípa um hausinn. Hvernig í fjandanum fer ég að því að lenda alltaf í einhverju furðulegu í þessum ferðum mínum? Ojæja, það var ekkert um það að ræða, ég opnaði hurðina og fór til vélstjórans sem að reifst og skammaðist af miklum móð við dömuna. Ég innti frétta.
"Þessi helvítis tík vill ekki keyra okkur niður í skip!" voru svörin sem ég fékk er ég innti eftir stöðu mála. Útgerð leigubíla í Alaska er greinilega bundin einhverjum öðrum lögmálum en annarsstaðar.
"Hvað erum við eiginlega búin að vera að gera" spurði ég. "2 tímar og við ekki komnir að hótelinu mínu"?
"Hún tók strikið beint útúr bænum þegar við settumst inn og vildi ekkert segja". Vélstjórinn var all-æstur og viðhafði munnsöfnuð sem að ég hlýddi á af áhuga. Það er alltaf hægt að læra meira. "Stoppaði svo við eitthvert vatn og reyndi ítrekað við mig. Við vorum stopp þar í klukkutíma og erum bara rétt komin hingað" bætti hann svo við. Hann hefur sjálfsagt barist hetjulega, persónulega, ef hún hefði haldið í hendina á mér þá hefði ég nagað af mér olnbogann og synt á haf út.
"Hvar er hér", spurði ég.
"Hef ekki hugmynd um það", sagði hann og leit illilega á dömuna. Allt í einu strunsaði hún af stað án þess að segja orð og hélt inn í einn trailerinn. Við vélstjórinn litum hvor á annann í algerri uppgjöf (skipstjórinn hraut ennþá af miklum móð inni í bíl) og fórum á eftir henni.
Ég vissi kannski ekki alveg við hverju var að búast þegar inn var komið. Flestir reyna að gera híbýli sín að, ja, sínum ef svo að orði má komast. Ég gat ekki annað en starað þegar ég kom inn. Þar inni voru 1 sófi, 1 borð, 1 sjónvarp og 1 leikjatalva. Að auki var einn útúrreyktur kani. Við vélstjórinn litum yfir aðstöðuna og svo hvor á annann. Þetta gæti bara ekki endað vel. Vélstjórinn fór í það að reyna að sansa liðið og hvetja kellinguna til að klára túrinn og keyra mig á hótelið og þá í skipið. Ég fór út, þurfti smá tíma til að ná áttum og vorkenna sjálfum mér. Eftir einhvern smá tíma þá kom vélstjórinn út sigri hrósandi, hafði fengið kellinguna til að klára túrinn. Mikið ofboðslega var ég feginn. Að vera fastur einhversstaðar í Bumfuck, Alaska var ekki alveg mín hugmynd um fjör. Og átti að mæta í flug um hádegi morguninn eftir.
En dag skal að kveldi lofa og mey að morgni. Þegar að á veginn var komið og ég farinn að róast aðeins niður, þá fyrst byrjaði ballið. Birtast ekki allt í einu blá og rauð blikkandi ljós í speglinum. Kellingin geggjast! Byrjar að úthúða okkur og svívirða, kallar okkur svívirðilega órariðla með aukaskammti af fasisma og ég veit ekki hvað og hvað. Ég varð alveg orðlaus. Eftir allt sem á undan var gengið þá bjóst maður nú ekki við einhverju svona skítkasti, það hefði kannski átt rétt á sér í hina áttina, ég veit það ekki. Það flaug í gegnum huga minn að þetta kvöld væri farið að verða nokkuð súrrealískt. Og ekki gat ég einu sinni því um kennt að ég hefði verið ofurölvi. Nú, hún stoppaði bílinn, hélt fyrirlestrinum áfram en varð alveg eins og ljós þegar pólitíið bankaði á gluggann. Hann lýsti inn í bílinn á hvert okkar, staldraði aðeins við þegar hann lýsti á mig þar sem ég sat, eymdin uppmáluð.
"Do you have licence and registration please" þrumaði yfirvaldið. Daman fór að tína til pappíra en eitthvað hafa þeir ekki verið eftir bókinni. "Would you step out of the vehicle please, mam". Daman hlýddi og fór aftur fyrir bíl. Með sameiginlegu átaki tókst mér og vélstjóranum að ræsa kafteininn og lýsa fyrir honum stöðu mála. Hann starði á okkur vantrúaður. Ég skildi hann vel.
Bandaríska löggan notar ekki blöðrur, heldur lætur menn halda handleggjunum útréttum, snerta nefið, labba eftir línu og þessháttar. Ef að menn falla á því prófinu eru þeir handteknir og settir í blóðprufu. Þrátt fyrir allt var dálítið kómískt að fylgjast með tilburðunum aftan við bíl. Löggimann kom nú og tilkynnti okkur að bílstjórinn hefði verið undir áhrifum og væri á leið í djeilið. Ég andvarpaði bara. Af hverju kom þetta mér ekkert á óvart eftir allt sem á undan var gengið? Sem betur fór var tiltölulega stutt á hótelið mitt, nokkurra mínútna gangur, en félagar mínir tveir þurftu að labba í einhvern klukkutíma til að komast í skipið.
Þegar ég kom inn á herbergi lagðist ég beint upp í rúm. Þegar ég vaknaði morguninn eftir komst ég að raun um að ég hafði ekki einusinni farið úr skónum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.