18.6.2008 | 07:04
Dutch....
Dutch Dutch Dutch...... Annar fasi er byrjaður hjá mér hérna. Ég er laus frá þessum dýrðarstað sem Akutan er og kominn til Dutch Harbor. Paradís á jörðu eða þannig. Ef þið viljið sjá myndir frá Dutch Harbor kíkið þá á Deadliest Catch á Discovery. Ég hef hitt nokkra af þessum skipstjórum, þetta eru svosem fínir kallar en vita alveg af sér. Sig Hansen og Johnathan Hillstrand voru á sama hóteli og ég hérna í Dutch í fyrra og ég lenti á spjalli við þá hérna á barnum. Svaka puff í þeim "Yes, we King Crab fishermen, nothing is like fishing King crab, bla bla bla.....". Ég afrekaði náttúrulega að láta þá nærri berja mig. Ég sagði þeim að ég hefði verið nokkur ár á togurum og bátum heima á Íslandi. Þeir viðurkenndu að þeir hefðu heyrt að það væri nokkuð erfitt djobb en bráðum snerist talið að þeim.
"Hefurðu ekki séð Deadliest Catch?" spurði Sig Hansen.
"Jújú, ég hef svosem séð það. Það er nokkuð vinsælt hjá fiskimönnum heima hef ég heyrt" sagði ég.
"Nú", sagði Johnathan, nokkuð drjúgur.
"Já, þeir kalla það Sissies at sea".
Sig setti upp þvílíkan fýlusvip en Johnathan rauk á fætur alveg eldrauður í framan. Hann róaðist reyndar strax áður en hann hjólaði í mig þegar hann sá mig sitjandi þarna glottandi, alveg greinilega bara að láta eins og hálfviti. Við spjölluðum alveg heilmikið lengur, ég útskýrði fyrir þeim að ég skildi alveg þetta dramitazation, þ.e. láta svona dramatík ráða ríkjum í þáttum sem þessum. Við skildum sem alveg ágætis félagar, Sig reyndar bauð mér með einn stuttan túr einhverntímann þegar ég vildi. Kannski ég þiggi það.
En Dutch er mjög fyndinn staður. Með mér hérna er náttúrulega Dustin félagi minn frá Seattle, sem ég er að þjálfa upp til að taka við af mér en einnig er hérna hann Ari félagi minn frá Marel á Íslandi. Mig vantaði mann til að taka helminginn af uppsetningunum á móti mér, tímasetningar voru þannig að ég gat hreinlega ekki náð einni uppsetningunni og Dustin er ekki tilbúinn til að vera sendur út af örkinni aleinn. Ara finnst þetta náttúrulega vera alveg stórmerkilegt en segir samt að landslagið hérna gæti verið sem hæglegast víða á Íslandi. Sem er alveg rétt hjá honum, eins og ég hef minnst á áður.
Hann hefur svakalega gaman af því að líkja Dutch Harbor við Dalvík. Hann ætti svosem að þekkja það, býr þar. Þar, samhliða vinnu sinni hjá Marel, rekur hann gistiheimili þar, Árgerði. Mæli með því. Einnig gerir hann fína tónlist. Tékkið á honum á tonlist.is Hinsvegar er ég ekki viss um að sumir Dalvíkingar sæu húmorinn í samlíkingunni vð Dutch Harbor.
Ég hef minnst á það áður að mér finnst sjávarþorpin hérna við Alaska vera sambland af gömlu herstöðinni á miðnesheiði og hvaða sjávarþorpi sem er heima. Það er eitthvað svona generalt við fiskvinnsluna, nema hvað allt er náttúrulega mun stærra í sniðum hérna. Hérna er það magnið, ekki gæðin sem ráða ríkjum. Reyndar mun það breytast innan fárra ára, hér er kvótinn tekinn við eins og svo víða annarsstaðar, en hér er sá munurinn að ríkið á kvótann, menn fá bara leyfi til að veiða hann. Ef að eigandi kvóta leigir hann þá verður hann að framselja kvótann innan ákveðins tíma, annars missir hann kvótann. Þetta kerfi veldur því að kvótinn er bundinn við skip, ekki útgerðir. Skipið verður að veiða kvótann, það er ekki nema að takmörkuðu leyti hægt að færa hann á milli skipa. En lögin hérna eru svo vitlaus að þau valda því einnig að það er nærri ógerningur að yngja upp flotann. Verð á nýsmíði hérna er stjarnfræðileg og ekki má fiska innan Bandarískrar lögsögu nema á skipi sem er smíðað að mestu leyti í Bandaríkjunum. Þetta veldur því að sum skipin hérna eru, satt að segja ógeðsleg.
Við höfum verið að setja upp kerfi hérna í 4 skipum. Tvö þeirra hafa verið fínustu fley, gömul en alveg þokkalega viðhaldið. Skipin hrein og mannskapurinn hreint út sagt atvinnumenn. En hin tvö..... Við skulum orða þetta þannig.
Þegar hugbúnaðarmenn fara í uppsetningu þá koma mjög oft með smíðakallar, sem við köllum. Þeir fara oft á staðinn á undan okkur og setja upp tækin, smíða það sem smíða þarf og gera klárt fyrir okkur . Hérna eru með okkur tveir rosalega fínir náungar, Jason og Billy, öllum hnútum kunnugir og hafa marga hildina háð í þessum bransa, enda verið í honum í nærri "tuddugofimm ár", einsog leigubílsstjórinn sagði. En aðkoman að einum dallinum var þannig að þeir sögðust aldrei hafa séð annað eins. Fyrir það fyrsta þurftu þeir að byrja á að hreinsa burt hálfúldinn fisk og skola svæðið til að geta gert vinnuaðstöðu. Ég frétti af þessu eftir að ég kom um borð og ég trúi þeim alveg algerlega, ástandið á dallinum var með þeim hætti. Ekki bætti svo áhöfnin úr skák. Þeir voru reyndar bara tveir um borð en talandi um Knoll og Tott! Sá fyrsti sem við hittum lofaði góðu, eða þannig. Hann hefur sennilega farið í bað um 1984 eða svo, sennilega verið um svipað leyti sem hann var edrú síðast, það var allavega að sjá. Það fór hálftími hjá honum í að skammast yfir því að hann hefði engar teikningar yfir neitt, allt hefði komið ómerkt og óteiknað og fleira og fleira. Guð einn veit hvað hann hefði gert við teikningar ef hann hefði fengið þær, sennilega hefði hann étið þær. Hinn hefur sennilega baðað sig um eitthvað svipað leyti, kannski verið fullur aðeins skemur. En bara aðeins. Þegar karluglan hafði lufsast eitthvað niður í skip þá fórum við að reyna að finna eitthvað útúr þessu klúðri. Eftir að hafa skoðað skipið og dáðst að hinum ýmsu kytrum og skotum reyndum við að finna einhvern flöt á því að koma þessu dóti fyrir. Fljótlega kom upp úr dúrnum að ég myndi nú sennilega gera minnst af uppsetningunni, ég var eiginlega orðinn verkefnastjóri og var í símanum eða tölvunni allan liðlangann daginn. Vantaði bara svarta stresstösku og bindi, ég get svarið það.
Hinn dallurinn var stórum skárri. Eitthvað verið til hans vandað og vélstjórinn þar hafði bara bullandi húmor fyrir þessu öllu saman, fínn náungi þar á ferð. Alltaf bætast svo við verkefnin og ég er búinn að vera stressður í því að skipuleggja ferðir 5 kalla út um hvippinn og hvappinn, alltaf samt að reyna að halda kostnaði niðri. Þetta er engan veginn það sem að ég bjóst við að þurfa að standa í, ég er alvarlega farinn að huga að námi í bókasafnsfræði, eða jafnvel Sagnfræði. Vera einn af þessum köllum í rykugum sloppum sem eiga afdalaða bakherbergis búð á laugaveginum, hafa bara opið þegar mér sýnist og vera sérfræðingur í sögu Danska tíeyringsins eða eitthvað.
Bara eitthvað sem veldur því að ég þarf ekki að ferðast svona mikið.
Athugasemdir
"Já, þeir kalla það Sissies at sea". Hefði gefið mikið fyrir að sjá framan í þessa gaura við þetta. Við Gunnar höfum einmitt séð nokkra af þessum þáttum. En gott þú ert laus frá Akutan og kominn í paradís "eða þannig". Vonandi gengur allt vel þar en er samt ekki alveg að sjá þig fyrir mér mér stresstösku og bindi.
Kveðja úr Laufhaganum.
Tína, 18.6.2008 kl. 07:27
Sissies at sea...Snilld! Hafðu það sem best þarna uppfrá.
Róbert Björnsson, 18.6.2008 kl. 20:04
Alaska, já...Tengdapabbi fór eitt sinn til Fairbanks og ku það vera eitt arfaslappasta pleis sem hann hefur nokkurn tímann komið til.
Stórmerkilegt þetta Alaska annars. 2x Íslandsfólksfjöldi og þetta væri 18. stærsta "land" í heimi, ef USA ætti það ekki. Allir búa víst í spenanum suðvestast. Hvar væri maður án Wíkípedíu?
Verðurðu þarna lengi eða e.t.v. til frambúðar?
Var sjálfur að koma úr 3ja vikna reisu víðs vegar um Tyrkland, að skoða hitaveitur. Þú ert kominn á fullt skrið í tölvubransanum, sé ég!
Kv. - Óskar P.
Óskar P. Einarsson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.