Færsluflokkur: Ferðalög
25.11.2010 | 04:33
Ferðadagbók í tónum.
Þar sem ég ferðast talsvert vinnu minnar vegna - og í tilefni þess að ég er að fara að flytja til Íslands aftur og takast á hendur enn frekari ferðalög - þá hef ég ákveðið að breyta þessu bloggi mínu í ferðadagbók í tónum. Markmiðið er að koma með lag með listamanni frá því landi sem ég ferðast til í það skiptið og setja hér inn. Ef ég finn ekki lag með listamanni frá því landi á youtube (lag sem mér líkar, það er) þá mun ég finna það annarsstaðar og setja í spilarann hér til hliðar.
Þar sem að ég er rokkáhugamaður mikill þá mun meginefni mitt vera svonefnt hard rock / heavy metal. Ég mun reyna að finna local bönd eftir því sem ég get en miðað við suma staði sem ég fer á þá er bara rétt nýlega búið að setja inn rafmagn, þannig að hefðbundið hart rokk, það er hart rokk í almennum skilningi getur verið vandfundið. En rokk er ekki bundið við rafmagnshljóðfæri, nema síður sé. Þannig að ég mun reyna að koma með hvað ég get.
Og þá að fyrsta þætti. Frá Póllandi koma (svo ég hljómi aðeins eins og kynnarnir hjá Júrovisjón) Acid drinkers. Þeir hafa verið að síðan 1986 og eru bara hreint alveg ágætir að mér finnst. Ég fór til Wladislowowo í Póllandi í Desember 2006.
Meira um þá hér.
Ég kem með næsta póst þegar ég nenni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2007 | 09:19
Akutan, Alaska. Október 2006
Ég er staddur í Alaska í þriðja sinn á þessu ári, nánar tiltekið á hinum virðulega stað Akutan í Aleuta eyjaklasanum. Hér er (og ég vitna í náungann sem náði í okkur í flugvélina) ein verksmiðja með 900 starfsmönnum og eitt þorp með 100 alkohólistum. Sel það ekki dýrar en ég keypti.
Flugið hingað var vandræðalaust, Keflavík - Minneapolis - Seattle þar sem við gistum, svo Seattle - Anchorage - Dutch Harbour - Akutan, allt í allt um 17 tímar á flugi. Ekki mikið miðað við vegalengdina hingað. Hinsvegar æstust leikar þegar til Dutch Harbour var komið. Þar tók við þetta líka flugapparat, Grumman Goose flugbátur, anno 1944.
Nú er ég hinsvegar staddur í verksmiðjunni og má ekki taka myndir hérna. Enda er ég ekki viss um að ég myndi vilja setja myndir af þessum ósköpum inn. Við skulum orða það svo: Þessi verksmiðja fengi seint starfsleyfi heima.
Myndir er hægt að sjá á http://www.123.is/album/display.aspx?fn=rattati&aid=-302611590
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2007 | 14:22
Kodiak, 25 maí 2006
Enn og aftur gömul færsla.
Það gengur ýmislegt á hér á bæ. Í gærkvöldi fórum við Martin aftur að veiða, þvældumst hér fram og aftur um alla á. Það náttúrulega beit ekki bein á hjá mér frekar en fyrri daginn þó Martin, í sínum vöðlum úti í miðri á þyrfti að berja frá sér fiska. Það er eins gott að ég þarf ekki að veiða ofan í fjölskylduna, hún myndi fljótlega svelta hjá mér. Það var slatti af fólki þar sem við byrjuðum þannig að Martin ákvað að færa sig aðeins til. Við keyrðum innar í dalinn, í gegnum "Valley of the antennas" sem þeir kalla sem svo hérna. Strandgæslan er með stærstu stöð sína einmitt hér í Kodiak og þeir eru með þennan líka fjölda af loftsnetmöstrum inni í dal þarna, af öllum mögulegum og ómögulegum stærðum. Merkilegt að það sjáist þar fugl, þau eru svo þétt. Það má náttúrulega ekki stoppa þegar keyrt er þar í gegn, þaðan af síður taka myndir.
Nú eftir smá stund sagðist Martin vita um stað neðar í ánni og keyrðum við þangað. Ég dró fram hina voldugu veiðistöng og fór að bera mig bara nokkuð fagmannlega við köstin, að mér fannst. Martin kommentaði eitthvað á tilburðina hjá mér þannig að ég bað hann allra náðarsamlegast að fremja sinn húmor annarsstaðar, ég væri upptekinn maður. Nokkru seinna er ég að skipta um spún (hógvær leið til að segja að ég var búinn að festa allt saman og þurfti að skera á línuna) þegar ég heyri hátt og skýrt fyrir aftan mig:
How´s fishing tonight, sir. Sir! Það er bara ein tegund manna sem að notar sir þannig að það hljómi þannig að maður sé akkúrat flest annað en sir. Ég sneri mér við, jújú, löggan var mætt á svæðið. Og ég án veiðileyfis. Þetta stefndi allt í að verða áhugavert kvöld.
"Do you have a fishing licence, sir?" spurði yfirvaldið þar sem ég stóð hálf vandræðalegur með stöngina í höndunnum.
"Ja, eiginlega ekki", stundi ég máttleysislega, veltandi fyrir mér hverslags ævintýri myndi koma út úr þessu. Menn lenda í fangelsi hérna fyrir það eitt að vera teknir fyrir of hraðann akstur, hvað þá meira þannig að það má búast við öllu frá þessum mönnum. Sennilega myndi ég enda í sellu með 200 kílóa svertingja sem myndi líta einu sinni á mig og segja "You´re my little puppy now!" Svört framtíð.
"Þú ert ekki héðan, er það?" spurði hann, fannst sennilega lítið til framkomunnar koma hjá mér, búinn að vefja mig inn í línuna við að skipta um spúninn.
"Nei," sagði ég reiðubúinn að láta töfraorðið falla. "Ég er frá Íslandi," segi ég hróðugur, "ég er að setja upp kerfi fyrir Trident verksmiðjuna hérna". Venjulegast gildir fínt að segjast vera frá Íslandi, fara svo í frásagnir af Ísbjörnum, eldgosum, Samfylkingunni og öðrum hörmungum. En það var við erfiðan áhorfanda að eiga þennan daginn.
"Ertu með skilríki" bað hann um. Nú ég geng helst ekki með vegabréfið á mér nema ég sé að nota það, og veiðiskreppur í smálæk í Alaska fellur tæpast undir þá skilgreiningu. Eftir smásnúning við að losa mig úr línunni náði ég að losa aðra hendina nógu mikið til að ná í veskið, sem ótrúlegt en satt ég var með á mér.
Það er svosem af nógu að taka þegar kemur að skilríkjum á Íslandi. Hvert einasta kort sem gefið er út er með kennitölunni á, flest með myndum líka. Ökuskirteinið mitt er úr fyrstu sendingunni sem kom af nýju skirteinunum, það var galli í þeim og myndirnar virðast vera af Uncle Fester úr Addams fjölskyldunni. Ég rótaði í veskinu og lét hann hafa ökuskirteinið, visakortið, 2 debetkort og einhvernveginn slæddist með kortið frá Bensínorkunni. Hann starði á hrúguna og síðan á mig.
"Ertu nokkuð með vegabréf svona til að gera þetta einfaldara", honum leist greinilega ekkert á hrúguna í hendinni á mér.
"Nei það er uppi í skipi," sagði ég og lýsti fyrir honum hvar ég gisti. Benti svo Á Martin þar sem hann stóð aðeins í burtu, algerlega í eigin heimi (hah) og tók ekki eftir neinu. "Ég er með honum" og vonaðist þar með að koma ábyrgðinni yfir á hann. Lögginn hélt nú langan fyrirlestur um það að það skipti ekki máli hvaðann menn kæmu eða hverjir þeir væru, allir væru skyldugir til að kaupa veiðileyfi og vera með á sér, sbr. Reglugerð... ég missti einhvernveginn af smáatriðunum þegar hér var komið við sögu. Nú var farið að fara virkilega um mig, þessi lögga virtist ætla að draga mig beina leið í djeilið þar sem fyrrnefnur svarti vinur minn biði eflaust eftir mér með eftirvæntingu.
"Förum til vinar þíns þarna" sagði löggi og benti á Martin. Ég kinkaði varlega kolli og hélt þá áfram að reyna losa mig úr flækjunni sem ég var búinn að vefja mig í. Á meðan við löbbuðum til Martins þá spurði hann:
"Hvar varst þú áður en þú komst hingað?"
"Sand Point" sagði ég. "Merkilegur staður."
Hann hló við. "Þú ert ekki að lýsa honum með of sterkum orðum."
"Ég reyni oftast að sjá það góða í hlutunum". Þögul bæn um létta meðferð.
"Hvert áttu að fara héðan?"
"Heim vona ég, vonandi bara núna um helgina"
Hann þagnaði við.
Þegar við nálguðumst Martin tók hann eftir okkur, pakkaði saman græjunum og labbaði til móts við okkur. Lögginn heimtaði nú alla pappíra frá Martin, sami prósess og ég hafði gengið í gegnum. Nema Martin var með leyfi! Hann vissi af því allann tímann bölvaður og lét mig ekkert vita að það þyrfti veiðileyfi.
"Get ég fengið skilríkin þín, eða visakortið aðeins aftur" sagði lögginn, búinn að draga upp heljarinnar skrifblokk og skrifa þar niður allt um Martin. Það þyrmdi yfir mig. Þar fór það. Hvernig í andsk. ætti ég að útskýra þetta fyrir yfirboðurunum að ég endaði í fangelsi í Alaska í fyrstu ferðinni fyrir fyrirtækið. Þetta leit ekki vel út.
Lögginn skrifaði niður nafn og kennitölu, rétti mér kortið aftur og stakk blokkinni í vasann hjá sér.
"Jæja, málið er þetta. Ég ætla ekki að skrifa þig upp í þetta skiptið. Ástæðan er sú að ég sá þig ekki með stöngina í vatninu, þú sagðir mér að þú hefðir verið að veiða. Önnur ástæða er sú að ef að ég skrifa þig upp þá þarft þú að mæta fyrir rétt og það veldur þér bara of miklum óþægindum, það er í fyrsta lagi hægt að komast að með málið þar eftir 3 vikur. Og í þriðja lagi skemmti ég mér allt of vel við að sjá svipinn á þér eftir því sem ég dró þetta!"
Eitthvað hefur svipurinn á mér verið sérstakur. Hann sprakk úr hlátri og skemmti sér greinilega alveg konunglega
Mér líkaði strax alveg stórvel við náungann, hver sá sem er þetta skepnulegur er toppmaður að mínu viti.
Á meðan við löbbuðum aftur að bílnum sagði hann okkur frá ýmsu varðandi veiði og þessháttar á svæðinu. Allrahanda smáspjall um allt og ekkert, hann var mjög áhugasamur þegar ég sagði honum að pabbi hefði verið lögga heima. Það er nú svo skrýtið með það, að löggæslustörf eru ekki bara vinna, þetta er lífsmáti hjá mörgum. Sem betur fór var þessi þó með þeim afslappaðri.
En semsagt, alltaf leggst manni eitthvað til við að brjóta upp dagana.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 14:00
Kodiak, Alaska
Hvað um það.
Þetta er einhver almagnaðasta verksmiðja sem að ég hef nokkurntímann séð. 1964 skall á 15 metra há flóðbylgja á Kodiak Island og rústaði pleisinu. Það lá eitthvað talsvert á að koma verksmiðjunni í gang aftur og greip fyrirtækið þá til örþrifaráðs. Þeir áttu verksmiðjuskip, gamalt Liberty skip frá því í stríðinu sem að var með verksmiðju um borð. Dallinum var bara siglt á land, jarðýtur ýttu jarðvegi að því og þar með var því bara parkerað. Endanlega. Skorin göt í hliðina á því og verksmiðjan trekkt í gang. Ég skelli inn myndum þegar að ég má vera að. Herbergið mitt er í fyrrum brúnni á dallinum, þar er gistiaðstaða fyrir nokkra. Það er hálf súrrealískt að rölta upp í brú um kvöldið til að fara að sofa. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu, myndirnar verða að tala sínu máli þegar ég set þær inn. En hér á ég væntanlega eftir að vera næstu vikuna, ég ætla að hætta þessu núna því að það er verið að draga mig í veiðitúr, þarf víst að passa mig á bjarndýrum, það ku vera nóg af þeim hér.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 12:28
Gafst upp fyrir ofureflinu....
Ég kem til með að færa ferðalýsingarnar frá www.123.is/rattati hingað. Myndasíðan verður þó áfram á http://www.123.is/rattati/default.aspx?page=albums . Til að byrja með þá set ég inn gamlar færslur en bæti þeim nýju náttúrulega við eftir því sem ég nenni að skrifa.
Hér kemur fyrsta ferðasagan sem ég gerði á gamla blogginu.
Flugið hingað var svosem í lagi, eitthvað um 6 tímar frá Íslandi til Minneapolis, 5 tíma bið þar eftir tengiflugi til Seattle (4 tímar) þar sem ég allra náðarsamlega náði 4 tíma svefni fyrir næsta áfanga, sem var 3 og hálfs tíma flug til Anchorage. Þegar þangað var komið var sem betur fer ekki nema klukkutíma bið (Bandarískir flugvellir eru ekki þeir skemmtilegustu, hyper tensaðir öryggisverðir og hvergi má reykja). Þá tók við ein skelfilegasta rella sem að ég hef nokkurntímann stigið upp í. 2 tímar og maður var eiginlega skelfingu lostinn allan tímann. Einhvernveginn hékk nú rellan samt í loftinu, sennilega af gömlum (ævagömlum) vana. Ég held að ég hafi aldrei verið lendingu jafn feginn, sem að segir nú ýmislegt því ekki er ég flughræddur maður.
Semsagt, eitthvað um 16 tímar á flugi og ég endaði á Þingeyri. Þetta er kannski ekki alveg sanngjarnt, ég veit að það eru malbikaðar götur á Þingeyri, ekki hér. Þetta er eins og að koma í blöndu af sjávarþorpi á Vestfjörðunum fyrir um 30 árum og varnarstöðinni. Spes pleis. Dýralífið hérna er samt alveg magnað, skallaernir og mávar skipta himninum með sér, fiftí-fiftí. Sæljón og allrahanda kvekindi bylta sér í sjónum, og allra þjóða kvikindi ofan hans. Filippseyingar, Tævanar, Kínverjar, Pólverjar, innfæddir inúítar, eiginlega allt nema hvítir heimamenn. Just like home. Verksmiðjan sjálf er nokkuð stór, byggð uppi á staurabryggju sem veldur því að fótatak hvers einasta manns glymur um allt hús. Eftir klukkutíma á kontórnum er maður úrvinda og langar helst til að leggja sig. Með mér hérna er maður frá eiganda verksmiðjunnar, þjónustumaður í tölvudeildinni þeirra, Martin að nafni. Helvíti fínn kall, við smullum ágætlega saman strax. Uppsetningin hefur gengið alveg þokkalega, allt er komið upp nema eitt. Klukkan er nú 4 að nóttu hérna og ég er uppi til þess að vera í sambandi við þjónustudeildina heima. Þetta verður langur dagur. Meira fljótlega.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)