22.4.2009 | 18:05
Flokkarnir og einstaklingskosningar.
Eins og ég hef margoft komið inná í mörgum pistlum þá er þetta flokkafyrirkomulag svo steinaldarlegt að það nær ekki nokkurri átt. Það eru einstaklingar innan allra flokka sem ég myndi glaður vilja kjósa, meira að segja nokkrir í VG og einn í B en þeir fá ekki mitt atkvæði því fyrr naga ég af mér eyrun heldur en að kjósa B, V eða S. Og ekki koma mér af stað með sveitastjórnarkosningarnar. Ef að það væri lögbundið að kjósa V, B eða S þá færi ég frekar í fangelsi, svo einfalt er það. D kýs ég ekki aftur í bráð í neinum kosningum.
Og hvað er þá eftir? Óánægjuframboð, klárt og einfalt. Vissulega er það gott í sjálfu sér en það leysir ekki vandann finnst mér. Ástþór kallinn.... hann má reyndar eiga að hann fær ágætis hugmyndir, kann að hugsa utan kassans eins og kallað er, en jeminn eini, ég myndi ekki vilja fá hann inn á stofugólf hjá mér, hvað þá á alþingi. Allavega ekki fyrr en hann lofar að taka lyfin sín. Borgarahreyfingin. Ég þekki ekki marga á þeim lista og það er ágætt í sjálfu sér. En verra er að ég fæ ekki nokkurn botn hvað þeir ætla að gera eða hvernig. Reyndar er það sammerkt með öllum flokkunum.
Tími endurnýjunar er kominn, það fer ekki framhjá neinum. En á meðan ungliðar eru aldir upp eftir flokkslínunni, hver sem hún er þá er ekki hægt að ætlast til að menn sýni sjálfstæða hugsun. Svo merkilegt sem það er þá hefur manni sýnst sem það séu VG og Sjallarnir sem eru með hálfgerða trúarbragðastefnu. Það sem flokkurinn segir er Orðið og vei þeim sem mótmæla. Samfylkingaungliðar eru alveg hjartanlega sammála um það að vera ósammála yfir öllum mögulegum og ómögulegum hlutum nema það að Jóhanna er hinn nýi Messías. B ungliðar láta fara lítið fyrir sér og virðist nú stefna í að þeir verði frekar Rotary klúbbur en stjórnmálasamtök. Þegar maður sér eða heyrir eitthvað jarm (ha ha) frá B þá er eins og þeir hálf skammist sín fyrir að opna ginið. Skil þá vel.
Margir hafa haldið því fram að ég sé á móti stjórnmálaflokkum. Því fer fjarri. Menn geta verið í hverjum þeim stjórnmálasamtökum sem þeim dettur í hug, flokksbundnir í allar áttir en það kemur ekki kosningunum við. Ef einstaklingur er kosinn á þing í einstaklingskosningum getur hann bundið trúss sitt við hvern þann þingflokk sem er stofnaður þegar á þing er komið. Ef Jón, Palli og Siggi eru í B geta þeir stofnað þingflokk B liða. Þeir verða þá bara að standa skil á því hvaða verk áunnust í nafni hans þegar kemur að næstu kosningum. Ef mönnum finnst þá sem að Jón og Palli hafi komið meiru í verk en Siggi þá sleppa menn því bara að kjósa Sigga en kjósa hina.
Jæja, ég nenni ekki meiru í bili. Varð bara að fá smá útrás.
Sjálfstæðisflokkur tapar miklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.