2.6.2008 | 20:22
Akutan, Alaska
Jæja, þá er ég mættur á gamalkunnar slóðir. Nánar tiltekið eyjuna Akutan, í Aleuta eyjum í Alaska.
View Larger Map
Hér hef ég verið nokkrum sinnum áður, eins og sjá má á gamla blogginu mínu, www.123.is/rattati
Þar eru einnig einhver fjöldi mynda.
Eitt af því skemmtilega við þessa vinnu mína er að ég hitti gríðarlega mikið af fólki sem að kannski labbar ekki alveg eftir sama slóða og aðrir. Þegar ég lenti í Dutch Harbour í gær kom í ljós að ekki var flugfært til Akutan. Það er reyndar svakalega gaman að fljúga þessa leið því að farkosturinn er yfir 60 ára gamall, Grumman Goose flugbátur. Eldri kynslóðir Íslendinga ættu að muna eftir þeim.
Það eru ekki bara flugvélarnar hérna sem eru eiginlega á síðasta snúningi. Eins og ég sagði þá er mikið um spes fólk hérna. Og af því ekki var flugfært hingað þurftum við að fara með bát hingað yfir og voru um 30 manns um borð í honum. Þar á meðal var einn gamall hippi. Hann hafði greinilega tekið virkan þátt í efnafræðilegri tilraunastarfsemi sem átti sér stað hjá hippunum á sínum tíma. Síiðandi, flissandi upp úr þurru og skemmti sér greinilega konunglega. Ég náttúrulega fór að spjalla við hann, fólk eins og hann heilla mig á einhvern hátt, ég hef óendanlega gaman af svona fólki. Talið barst meðal annar að því hvar ég vann, ég sagðist vera að vinna hjá Carnitech í Seattle sem væri dótturfyrirtæki Marel á Íslandi.
"Marel", sagði hann. Ég fattaði svosem strax að hann heyrði greinilega einungis það sem hann vildi heyra. "Marel er nafn á sveppi" Hann átti reyndar við Morel, en ég lét kyrrt liggja. "Alveg rosalega gómsætur sveppur. Ég veit sko allt um sveppi".
Ég efast ekki um það.
Kem með aðra færslu og fleiri myndir seinna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.