Gafst upp fyrir ofureflinu....

Ég kem til með að færa ferðalýsingarnar frá www.123.is/rattati hingað. Myndasíðan verður þó áfram á http://www.123.is/rattati/default.aspx?page=albums . Til að byrja með þá set ég inn gamlar færslur en bæti þeim nýju náttúrulega við eftir því sem ég nenni að skrifa.

Hér kemur fyrsta ferðasagan sem ég gerði á gamla blogginu.

Þegar ég skrifa þetta er ég staddur í Alaska, nánar tiltekið í hinum virðulega kaupstað Sand Point á Aljúta eyjum. Ég er hér í ferð á vegum fyrirtækisins við að setja upp pökkunarkerfi í tveimur verksmiðjum. Ég fer væntanlega í dag til Kodiak, sem að er stærsta eyjan við Alaska.

Flugið hingað var svosem í lagi, eitthvað um 6 tímar frá Íslandi til Minneapolis, 5 tíma bið þar eftir tengiflugi til Seattle (4 tímar) þar sem ég allra náðarsamlega náði 4 tíma svefni fyrir næsta áfanga, sem var 3 og hálfs tíma flug til Anchorage. Þegar þangað var komið var sem betur fer ekki nema klukkutíma bið (Bandarískir flugvellir eru ekki þeir skemmtilegustu, hyper tensaðir öryggisverðir og hvergi má reykja). Þá tók við ein skelfilegasta rella sem að ég hef nokkurntímann stigið upp í. 2 tímar og maður var eiginlega skelfingu lostinn allan tímann. Einhvernveginn hékk nú rellan samt í loftinu, sennilega af gömlum (ævagömlum) vana. Ég held að ég hafi aldrei verið lendingu jafn feginn, sem að segir nú ýmislegt  því ekki er ég flughræddur maður.

Semsagt, eitthvað um 16 tímar á flugi og ég endaði á Þingeyri. Þetta er kannski ekki alveg sanngjarnt, ég veit að það eru malbikaðar götur á Þingeyri, ekki hér. Þetta er eins og að koma í blöndu af sjávarþorpi á Vestfjörðunum fyrir um 30 árum og varnarstöðinni. Spes pleis. Dýralífið hérna er samt alveg magnað, skallaernir og mávar skipta himninum með sér, fiftí-fiftí. Sæljón og allrahanda kvekindi bylta sér í sjónum, og allra þjóða kvikindi ofan hans. Filippseyingar, Tævanar, Kínverjar, Pólverjar, innfæddir inúítar, eiginlega allt nema hvítir heimamenn. Just like home. Verksmiðjan sjálf er nokkuð stór, byggð uppi á staurabryggju sem veldur því að fótatak hvers einasta manns glymur um allt hús. Eftir klukkutíma á kontórnum er maður úrvinda og langar helst til að leggja sig. Með mér hérna er maður frá eiganda verksmiðjunnar, þjónustumaður í tölvudeildinni þeirra, Martin að nafni. Helvíti fínn kall, við smullum ágætlega saman strax. Uppsetningin hefur gengið alveg þokkalega, allt er komið upp nema eitt. Klukkan er nú 4 að nóttu hérna og ég er uppi til þess að vera í sambandi við þjónustudeildina heima. Þetta verður langur dagur. Meira fljótlega.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband