Fortunate in Fortune...

Fortune á Nýfundnalandi. Hmmm. Enn eitt smáþorpið sem ég kem til í þeim tilgangi að setja upp hugbúnaðarkerfi. Það liggur í hlutarins eðli að hvert einasta þorp er einstakt en samt sem áður er einhverskonar "same-ness" yfir þeim öllum, svo ég noti nú orð eins ágæts kunningja míns, þegar maður ferðast svona þorp úr þorpi. Hérna er um 20-30% atvinnuleysi, sem sést mjög vel á því að í verksmiðjunni hérna er yngsti starfskrafturinn um 55 ára eða svo. Það er einhverskonar goggunarröð hérna í sambandi við störf og krakkarnir sem eftir eru hérna eiga ekki séns.

Fortune

Staðurinn sjálfur hefur svosem ekki upp á margt einstakt að bjóða. Lágar, aflíðandi hæðir,  grasbleðlar og lágvaxin tré sem minna frekar á veðurbarða girðingastaura. Sjórinn hérna er mjög grunnur og þegar hvasst er inn í höfnina hérna eins og var í dag þá verður sjórinn moldarbrúnn. Mjög sérkennilegt að sjá brúnar öldur brotna á ströndinni. Viðhald á húsum og öðrum mannvirkjum hefur lagst af um 1980 eða svo enda ber allt því vitni. En fólkið er  eins og ég hef alltaf sagt, eins um heim allan. Kvótakerfið er hérna við lýði eins og annarsstaðar ásamt sömu afleiðingum og annarsstaðar. Unga fólkið að miklu leyti flutt í borgirnar en eldra fólkið situr eftir.

Ég stóð hérna úti við áðan, var að fá mér ferskt loft. Ég stóð í skoti í skjóli fyrir vindinum. Það kemur út maður, hægláturí hreyfingum og röltir að kari sem að stóð þarna á bryggjunni. Hann sest á brúnina á því og horfir út á hafið langa stund. Mér dauðbrá þegar ég leit framan í hann því að það var ekkert að sjá í andlitinu á honum nema kolsvart vonleysi. Í einu vetfangi sá maður hvað maður hefur það ofsalega gott. Ég hef oft hugsað til þess hvað ég á virkilega gott, ég ferðast um merkilegustu staði en ég hef alltaf færi á að fara heim aftur. Þetta fólk hefur ekki úr neinu slíku að velja því það er heima og ekki að neinu að hverfa.

Fyrirtækið sem á þessa verksmiðju er Íslenskt og ég hef heyrt að fólk er ákaflega þakklátt fyrir að verksmiðjan hafi verið opnuð aftur. Fyrirtækið sem var á undan lokaði fyrirvaralaust og skildi fólkið eftir í sárum.Það eru bundnar miklar vonir við þetta og fyrstu merki lofa góðu, skilst mér. Vona að það gangi eftir.

Annars er ekki allt dauði og djöfull hérna, langt í frá. Fólkið er indælt og þar sem fólk býr þar er yfirleitt fjör, að einhverju marki allavegana. Og svo verður sko í kvöld. Það stefnir í að allt verði vitlaust og ætli það endi ekki með að það verði að kalla út varalið lögreglunnar (Alan Hammond, 78 ára) til að hafa stjórn á æstum múgnum.

Það er nefnilega bingó í stóra salnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu kallinn, þú átt mér greinilega mikið að þakka að hafa komið þér á þennan eðalstað... Gangi þér vel á bingóinu í kvöld!

Trausti (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 00:03

2 Smámynd: Billi bilaði

Verkalýðsfélögin þarna hafa "priority" lista sem virka þannig að þeim sem hafa verið lengst skráðir í félagið skal fyrst bjóða vinnu sem losnar. Það þýðir, eins og þú segir, að unga fólkið á ekki séns.

Ég sá þetta í St. Anthony á Nýfundnalandi 1999, og fékk útskýringar á þessu. Fyrsta vaktin í rækjuverksmiðjunni sem verið var að gangsetja þá var með hóp af eldri mönnum í pilluninni. Þeir þurftu sem sagt að koma og prófa og segja "nei, við þetta viljum við ekki vinna" til þess að hægt væri að ráða konur í störfin.

Billi bilaði, 16.8.2008 kl. 00:05

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Bíddu nú Trausti minn, ekki vissi ég til að þú hefðir tíma til að lesa blogg, er ekkert að gera hjá þér eða hvað????

Og Billi, takk fyrir þetta, ég vissi bara að það væri einhverskonar priority listi, ekki hvernig hann virkaði. Takk.

Heimir Tómasson, 16.8.2008 kl. 00:24

4 Smámynd: HR

Sæll Gamli,

Það var nú betri stemning í OZ ?

Gangi þér vel vinur. Kv Hlynur R.

HR, 16.8.2008 kl. 23:18

5 Smámynd: Tína

Satt segirðu að við getum ekki kvartað, því þrátt fyrir allt þá höfum við það alveg ótrúlega gott.

Góða skemmtun í bíngó, held það sé alveg sérstök stemning í svoleiðis og örugglega ekki leiðinlegt. Láttu okkur endilega vita hvernig gekk ef þú tekur þátt.

Kveðja úr Laufhaganum

Tína, 18.8.2008 kl. 08:55

6 identicon

Vá. Þessi lýsing hljómar eins og sena úr Kaurismaki-mynd.

Óskar P. Einarsson (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 14:55

7 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Flottur pistill

Heimir Eyvindarson, 20.8.2008 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband